Nautaskrá

Frétt

Viðurkenning fyrir besta nautið fætt 2007 afhent

Á fagþingi nautgriparæktarinnar sem nú stendur yfir í húsnæði Íslenskrar erfðagreiningar í Reykjavík var afhent viðurkenning fyrir besta nautið fætt árið 2007 frá Nautastöð Bændasamtaka Íslands. Að þessu sinni hlaut kynbótanautið Sandur 07014 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum þessa nafnbót. Guðný Helga Björnsdóttir, formaður fagráðs í nautgriparækt, afhenti Jóni Vilmundarsyni öðrum ræktenda Sands viðurkenninguna og við það tækifæri var meðfylgjandi mynd tekin.

Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um Sand fyrir afhendingu verðlaunanna. Þar kom m.a. fram að Sandur var fæddur 9. mars 2007 í Skeiðháholti 1 og var undan Glanna 98026 frá Stóra-Ármóti og Jónu 654 í Skeiðháholti 1 Sprotadóttur 95026 frá Kirkjulæk í Fljótshlíð. Ræktendur Sands voru hjónin Jón Vilmundarson og Guðrún Helga Þórisdóttir, bændur í Skeiðháholti 1.
Í umsögn um dætur Sands kemur fram að þær eru góðar mjólkurkýr og hlutfall próteins í mjólk hátt meðan að hlutfall fitu er um meðallag. Þetta eru júgurhraustar kýr með mjög vel borin júgur og mjög góða júgurfestu en júgurband er ekki áberandi. Spenar eru aðeins langir en vel staðsettir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og skap kúnna um meðallag.

Fagráð í nautgriparækt og Nautastöð BÍ óska ræktendum Sands til hamingju með viðurkenninguna með þökkum fyrir ræktun þessa mikla kynbótagrips.