Nautaskrá

Frétt

Verðlaun fyrir besta nautið fætt 2006 afhent

Á fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið var á Hótel Sögu í gær, fimmtudaginn 27. mars 2014, voru afhent verðlaun fyrir besta nautið fætt árið 2006. Að þessu sinni hlaut kynbótanautið Koli 06003 frá Sólheimum í Hrunamannahreppi þessa nafnbót. Sigurður Ingi Jóhannsson, ráðherra landbúnaðarmála, afhenti þeim Esther Guðjónsdóttur og Jóhanni B. Kormákssyni ræktendum Kola verðlaunin og við það tækifæri var meðfylgjandi mynd tekin.

Guðmundur Jóhannesson, ábyrgðarmaður í nautgriparækt hjá RML, fór nokkrum orðum um Kola fyrir afhendingu verðlaunanna. Þar kom m.a. fram að Koli var fæddur 23. febrúar á Sólheimum undan Fonti 98027 frá Böðmóðsstöðum í Laugardal og Elsu 226 á Sólheimum Kaðalsdóttur 94017 frá Miklagarði í Saurbæ. Dætur Kola eru góðar mjólkurkýr og hlutfall verðefna í mjólk ákaflega hátt. Þetta eru júgurhraustar kýr með mjög vel borin júgur, afar sterkt júgurband og mjög góða júgurfestu. Spenar eru vel lagaðir og vel staðsettir en fremur stuttir og grannir. Mjaltir eru um meðallag og kýrnar skapgóðar. Notkun Kola hefur verið mikil enda um afbragðsgrip að ræða.