Nautaskrá

Frétt

Þrjú ný reynd naut til notkunar

Fagráð í nautgriparækt fundaði í gærkvöldi og tók ákvörðun um að setja þrjú naut úr árgangi 2014 til notkunar sem reynd naut að lokinni keyrslu kynbótmats nú í júlí. Þessi naut eru Kláus 14031 frá Villingadal í Eyjafirði, undan Hjarða 06029 og Klaufu 248 Laskadóttur 00010, Stáli 14050 frá Hlemmiskeiði 2 á Skeiðum undan Legi 07047 og Birnu 805 Reyksdóttur 06040 og Svanur 14068 frá Bryðjuholti í Hrunamannahreppi undan Hjarða 06029 og Önnu 506 Ófeigsdóttur 02016. Glöggir lesendur sjá strax að Kláus 14031 er hálfbróðir Bárðar 13027 að móðurinni til.

Jafnframt var ákveðið að nautsfeður næstu mánuði verði Bakkus 12001, Sjarmi 12090, Jörfi 13011 og Hálfmáni 13022. Bárður 13027 verður hins vegar tekinn úr hópi nautsfeðra eftir að hann lækkaði nokkuð í mati.

Næstu mánuði verða því 20 reynd naut í dreifingu og úrvalið því ekki verið jafn mikið um áraraðir. Í hópi þessara nauta er að finna marga kostagripi og því ætti hver og einn að geta fundið naut sem fellur vel að þeim gripum sem sæða á hverju sinni.

Þessi þrjú naut sem nú koma til dreifingar eru væntanleg í kúta frjótækna um allt land við næstu áfyllingar.

/gj