Nautaskrá

Frétt

Synir Úranusar 10081

Eitthvað hefur borið á því að menn hafi áhyggjur af því að synir Úranusar 10081, sem nú eru í dreifingu, erfi frá sér gleitt setta framspena. Það er rétt að Úranus sjálfur er með 77 í kynbótamat fyrir spenastöðu og erfir þar að hluta þennan galla frá föður sínum, Síríusi 02032 sem stendur í dag með 61 fyrir þennan eiginleika. Þetta segir okkur hins vegar að Úranus er föðurbetrungur hvað þetta snertir enda er þessi galli ekki það áberandi hjá dætrum hans að alvarlegur geti talist. Af 90 dæmdum dætrum Úranusar fengu 51 (57%) einkunnina 5 fyrir stöðu framspena, 27 (30%) fengu 4, 9 (10%) fengu 3 og 3 (3%) fengu 6.

Við val á sonum Úranusar var sérstaklega horft til stöðu framspena og eru mæður þeirra nauta sem komin eru til drefingar allar nema ein með 5 í einkunn fyrir stöðu framspena. Þá eru 6 þeirra með kynbótamat yfir 100 fyrir stöðu framspena en tvær rétt fyrir neðan 100. Þessar tvær kýr eru báðar með vel setta spena sjálfar.

Í þessu sambandi sem og öðru hvað val kynbótanauta snertir verða menn að treysta því að val þeirra sé unnið á faglegan hátt. Það er alveg ljóst að það er ekki markmið þeirra sem það vinna að stuðla að afturför heldur þvert á móti er markmiðið að ýta undir framfarir. Það er því alveg fráleitt að ætla að val á sonum Úranusar hafi verið unnið á þann hátt að verið væri að reyna að fá fram gleitt setta framspena. Við skulum ekki gleyma því að Úranus erfir frá sér mikla kosti enda með 111 í heildareinkunn, 119 fyrir afurðir, 127 fyrir mjaltir, 124 fyrir skap og 131 í gæðaröð. Það segir okkur að dætur hans þykja afbragðskýr í fjósi og engin ástæða til að ætla annað en að synir hans muni bera þessa miklu kosti áfram til næstu kynslóðar.

/gj