Nautaskrá

Frétt

Sýni úr 498 nautum farin til arfgerðargreiningar

Í gær, þann 13. desember, voru send sýni úr 223 nautum til arfgerðargreiningar hjá Eurofins í Árósum í Danmörku. Áður var búið að senda sýni úr 275 nautum þannig að heildafjöldinn er 498. Um er að ræða sæðissýni úr afkvæmaprófuðum nautum fæddum 1990-2012 en í hlutarins eðli liggur að ekki eru tiltæk vefjasýni úr þessum nautum. Í framhaldinu verða þessi sýni arfgerðargreind með greiningu sem nær yfir 54.000 einbasabreytileika (SNP) í erfðamengi þessara gripa.

Samhliða þessum sýnum hafa verið send 3.390 vefjasýni úr kúm og kvígum sem safnað hefur verið nú í haust og vetur á búum víðs vegar um land og verða þau sýni greind á sama hátt. Þeir nautgripir sem tekin hafa verið sýni úr munu mynda grunnerfðahóp í erfðamengisúrvali fyrir íslenska kúastofninn. Ætlunin er að safna sýnum úr um 4.100 gripum til viðbótar þannig að heildarfjöldi ná um 7.500 gripum.

/gj