Fyrir skömmu varði Halldor Felde Berg doktorsritgerð sína „Frjósemi og sæðisgæði með notkun SpermVital-sæðis til tæknifrjóvgunar í nautgripum“ við Norska umhverfis- og lífvísindaháskólann í Ási. Megintilgangur doktorsverkefnisins var að afla meiri þekkingar um SpermVital-sæði, sérstaklega með tilliti til upplausnar á „alginat“-hlaupinu sem notað er í SpermVital, sæðisgæða eftir frystingu og frjósemi eftir sæðingu sem framkvæmd var á venjulegum tíma í tengslum við beiðsli og egglos. Rannsóknunum var ætlað að kanna gæði sæðis með því að mæla sundeiginleika sáðfrumanna, orkubreytingu, lífvænleika og DNA-gæði eftir þíðingu og álagspróf.
Rannsóknir hafa sýnt að hægt er að sæða með SpermVital snemma á beiðslinu með góðum árangri og ná sambærilegri frjósemi og við tvísæðingar með hefðbundnu sæði. Í doktorsverkefninu var gerður samanburður á frjósemi eftir sæðingu á hefðbundnum tíma með motkun SpermVital-sæðis með tvenns konar þéttleika og staðlað sæði og kanna hvort tengsl væru milli frjósemi og sæðisgæða. Annað undirmarkmið rannsóknarinnar var að fá betri innsýn í lífeðlisfræði eggjastokka NRF-kúa; hvernig þeir bregðast við samstillingu þegar kemur að egglosi, virkni við beiðsli og styrk prógesteróns í mjólk.
Verkefnið sýndi fram á svipaða frjósemi með notkun SpermVital-sæðis og hefðbundins sæðis, jafnvel við minni þéttleika, það er færri sæðisfrumna í hverjum skammti. Við skoðun á rannsóknastofu voru gæði SpermVital-sæðis meiri en hefðbundins sæðis með tilliti til hreyfigetu, lífvænleika og orkuinnihalds, sem gæti skýrt hvers vegna notkun SpermVital-sæðis með minni þéttleika sýnir sambærilegan árangur og hefðbundið sæði.
SpermVital gefur aukinn sveigjanleika í tímasetningu sæðingar í tengslum við egglos. Við skoðun í legi kúa kom í ljós að hægt er að greina SpermVital-hlaupið í kúnni 24 klukkustundum eftir sæðingu. Sæðið reyndist hafa góða hreyfigetu og lífvænleika eftir að hafa verið í legi yfir nótt (sláturlíffæri). Niðurstöðurnar benda til langvarandi losunar á sæði af góðum gæðum úr SpermVital hlaupinu, sem getur lengt þann glugga sem opnast við hvert beiðsli til þess að koma kálfi í kýrnar.
Þannig sýnir verkefnið fram á að sæðisfrumur sem unnar eru með SpermVital tækni eru í háum gæðaflokki og að sæðing með SpermVital-sæði af minni þéttleika skilar sambærilegum árangri og hefðbundið sæði.
Þessar niðurstöður staðfesta það sem áður hefur komið fram, það er að hægt er að sæða fyrr á beiðslinu með SpermVital-sæði en hefðbundnu sæði og tímasetning sæðingar er ekki eins vandasöm. Þetta þýðir að fyrri ráðleggingar varðandi notkun SpermVital-sæðis eru áfram góðar og gildar.
SpermVital- sæði á að nota á:
- Gripi sem sér illa á og erfitt er að tímasetja hvar á beiðslinu þeir eru við sæðingu.
- Gripi sem eru þekktir vandamálagripir og gengur ævinlega erfiðlega að fá til að festa fang.
- Gripi sem sjást beiða að morgni (eru á forbeiðsli) og frjótæknir kemur samdægurs til sæðinga á grip/um sem sá á daginn áður.
- Gripi sem hafa verið samstilltir og er þá einungis sætt einu sinni með SpermVital-sæði, ekki tvísætt.
Fyrir áhugasama er doktorsritgerð Halldor Felde Berg að finna á vef Norska umhverfis- og lífvísindaháskólans.
/gj