Nautaskrá

Frétt

Síðustu fjögur nautin úr árgangi 2017

Fjögur síðustu nautin úr 2017 árgangi eru nú að koma til dreifingar og eru upplýsingar um þau komnar hér á vefinn. Þetta eru Ítali 17056 frá Stóru-Reykjum í Flóa undan Úlla 10089 og Ítalíu 630 Þáttardóttur 08021, Krókur 17058 frá Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum undan Lúðri 10067 og 1245 Kambsdóttur 06022, Ristill 17060 frá Reykjum á Skeiðum undan Úlla 10089 og Ristlu 657 Koladóttur 06003 og Tyrfill 17061 frá Torfum í Eyjafirði undan Lúðri 10067 og Malín 882 Bambadóttur 08049.

Þar með er orðið ljóst að til dreifingar koma 34 naut úr 2017 árgangi og er það stærsti nautaárgangur frá upphafi.

SpermVital-sæði er til úr öllum þessum nautum og hvatt er til notkunar á því þar sem það hefur sýnt sig reynast vel á vandamálkýr og við samstillingar en þá má notast við eina sæðingu með sama árangri og við tvísæðingar. Dreifing er hafin á ákveðnum svæðum úr þessum nautum og hefst fljótlega á öðrum svæðum.

Ungnautaspjöld verða ekki gefin út með upplýsingum um þessi naut en verða aðgengileg sem pdf-skjöl hér á vefnum eins og venja er. Ástæða þess er sú að notkun veraldarvefsins fer stöðugt vaxandi og því ástæðulaust að prenta út skjöl með tilheyrandi kolefnisspori og kostnaði. Nautastöðin tekur þannig eitt lítið umhverfisvænt skref með því en margt smátt gerir eitt stórt.

/gj