Nautaskrá

Frétt

Sandur 07014 valinn besta naut 2007 árgangsins

Besta naut árgangsins 2007 var valið á síðasta fundi fagráðs í nautgriparækt í gær. Fyrir valinu varð Sandur 07014 frá Skeiðháholti 1 á Skeiðum. Ræktandi Sands fær afhenta viðurkenningu fyrir nautið á fagþingi nautgriparæktarinnar sem haldið verður í mars á næsta en segja má að þetta séu æðstu verðlaun nautgriparæktarinnar hérlendis.
Sandur var fæddur 9. mars 2007 í Skeiðháholti 1 á Skeiðum, sonur Glanna 98026 og Jóna 654 Sprotadóttir 95036 og eru ræktendur hans þau Jón Vilmundarson og Guðrún Helga Þórisdóttir.

Dómsorð Sands eru: „Dætur Sands eru ágætlega afurðasamar varðandi mjólkurmagn og próteinhlutfall en fituhlutfall er undir meðallagi. Þær eru fremur útlögumiklar með fremur grannar og þaklaga malir en ágæta fótstöðu. Yfirlína er einnig fremur sterk. Júgurgerð dætra Sands er mjög góð, mikil festa og júgrin vel borin en júgurband ekki áberandi. Spenar eru langir og grannir en ágætlega settir. Mjaltir eru úrvalsgóðar og skap um meðallag.
Sandur 07014 hlýtur nafnbótina besta naut 2007 árgangs nauta frá nautastöð BÍ.“

Sandur 07014 stendur nú með 113 í heildareinkunn í kynbótamati.