Nautaskrá

Frétt

Sæðisfrysting í „ministrá“ hafin

Síðustu dagar hafa verið skemmtilega annasamir á Nautastöðinni. Hér hefur verið Stephane Liagre sérfræðingur frá IMV í Frakklandi til að setja upp tölvustýrðan frysti og breyta áfyllingarvélinni þannig að nú tekur hún „ministrá“. Miðvikudaginn 18. jan. var tekið sæði úr 5 nautum til prófunar á áfyllingarvélinni og frystinum. Í stuttu máli gekk það mjög vel. Öll nautin voru með gott sæði eftir frystingu. Þau voru þó valin sérstaklega. Tvö þeirra höfðu ekki verið að gefa gott sæði eftir frystingu, tvö höfðu kynnt sig með góð gæði og eitt naut með frábært sæði. Ekki var að sjá mikinn mun þennan dag.
Í gær, þ.e. fimmtudaginn 19. jan., keyrðum við svo stífan dag, tókum sæði úr 14 nautum (reyndum við það fimmtánda) og tókum rétt um fimm þúsund skammta. Þegar við höfðum greint þetta sæði kemur í ljós að 3 naut gefa meðalgott sæði og 11 þeirra gefa gott sæði og þar af er sæði úr 6 nautum merkt með úrvalsstimpli. Þetta gefur góðar vonir til framtíðar – en getur líka verið „byrjandaheppni“.
Þá er rétt að geta þess að þessi svokölluðu „ministrá“ eiga að taka 0,25 ml en í raun er rúmmálið aðeins minna. Því höfum við ákveðið, að fenginni ráðgjöf og upplýsingum frá Noregi, að fækka aðeins frumufjölda í hverjum skammti. Sæðisfrumur verða 25-27 milljónir í hverjum skammti. Þetta er gert í því ljósi að þegar rúmmálið minnkar er möguleiki á að þéttleikinn verði of mikill. Norðmenn eru t.d. með helmingi færri frumur en við eftir þessa breytingu en í rannsóknum þar hefur of mikill þéttleiki gefið lakari árangur.

se/gj