Nautaskrá

Frétt

Nýtt reynt naut til notkunar

Fagráð í nautgriparækt fundaði í dag og tók ákvörðun um hvaða reyndu naut verða í dreifingu næstu vikur. Ákveðið var að halda nautahópnum sem næst óbreyttum en bæta Herki 16069 frá Espihóli í Eyjafirði í hóp reyndra nauta. Hann er undan Gusti 09003 og móðurfaðir er Baldi 06010. Þá var ákveðið að taka Bjarka 15011 og Sjúss 15048 úr dreifingu en notkun á þeim er orðin lítil.

Nautsfeður verða áfram þeir sömu og síðustu vikur utan það að Jónki 16036 bætist í þann hóp eftir umtalsverða hækkun í mati.

Rétt er að taka fram að nú í september var keyrt nýtt kynbótamat fyrir afurðir, frumutölu og frjósemi en það mat er jafnframt nýtt af nálinni. Frjósemiseinkunn er nú samsett einkunn þar sem notuð eru sæðingagögn en til grundvallar er lagt bil frá burði til sæðingar, bil frá fyrstu til síðustu sæðingar og fanghlutfall við 1. sæðingu hjá kvígum. Nýja frjósemismatið er unnið af Þórdísi Þórarinsdóttur og byggir á meistaraverkefni hennar við Landbúnaðarháskóla Íslands.

Fyrir dyrum stendur útgáfa nýrrar nautaskrár þar sem nautin verða kynnt og meðal annars gerð betri grein fyrir nýja frjósemismatinu.