Nautaskrá

Frétt

Nýfundin stökkbreyting í NRF hefur áhrif á frjósemi

Nýverið fannst stökkbreyting í NRF-kúakyninu í Noregi sem hefur áhrif á frjósemi. Þessi stökkbreyting kallast BTA8H og svipar nokkuð til stökkbreytingar sem fannst fyrir nokkrum árum og kallast BTA12. Báðar þessar stökkbreytingar valda fósturláti en sú nýfundna veldur fósturdauða snemma á meðgöngu (sýnir sig sem að kýrnar beiða upp) en sú áður þekkta veldur fósturláti seint á meðgöngu. Ekki er búið að arfgerðargreina þessa stökkbreytingu að fullu, en með samkeyrslu á skýrsluhaldsupplýsingum og erfðamengjaúrtaki kemur í ljós fylgni.

Um er að ræða víkjandi erfðavísi sem þýðir að fóstur sem erfa þennan erfðavísi frá báðum foreldrum eyðast fljótlega eftir getnað. Norðmenn eru nú þegar farnir að greina hvaða naut í stofninum eru arfberar þessarar stökkbreytingar og er hægt að nota þær upplýsingar þegar pörunaráætlanir eru unnar til að koma í veg fyrir að para saman tvo arfbera, séu kýr og kvígur á viðkomandi búi arfgerðargreindar. Það á líka við um aðrar stökkbreytingar sem valda fósturláti eða frjósemisvandamálum.

Í framhaldi af þessu veltir maður fyrir sér hvað við komum til með að finna í íslenska kúakyninu þegar farið verður rannsaka erfðamengi íslensku kýrinnar nánar. Eitt af því sem athygli verður beint sjónum að þar verða frjósemistengdir þættir og ekki loku fyrir það skotið að fyrirfinnist erfðavísar sem hafa áhrif á frjósemi.

Jóna Þórunn Ragnarsdóttir þýddi af geno.no

/gj