Nautaskrá

Frétt

Nautastöðin keypti 53 kálfa fædda 2018

Nautastöð BÍ keypti 53 kálfa fædda árið 2018 eða 20% þeirra kálfa sem tilkynnt hefur verið um. Alls bárust tilkynningar um 261 kálf fæddan 2018. Sambærilegar tölur fyrir kálfa fædda 2017 eru 289 tilkynntir og 68 keyptir eða 24%. Tilkynningum um nautkálfa hefur á síðustu tveimur árum fjölgað allmikið og er það vel. Á sama tíma hefur þurft að afþakka fleiri kálfa en áður sem leiðir til sterkara úrvals og öflugri og betri kynbótagripa.

Aukinn fjöldi tilkynninga um nautkálfa sýnir svo ekki verður um villst að ræktunaráhugi bænda er góðu heilli vaxandi. Það sem af er þessu ári hefur þegar verið tilkynnt um 58 kálfa fædda 2019 og þar af liggur fyrir ákvörðun um kaup á 8 þeirra og sex bíða skoðunar þegar þetta er ritað. Hlutfall keyptra kálfa af tilkynntum er því 15% sem sýnir orðið gríðarmikið úrval. Kröfur til nautsmæðra eru líka orðnar miklar og er þar ekki einugis horft til kynbótmats þeirra heldur einnig útlits, frammistöðu, frjósemi og hvernig pörun við viðkomandi nautsföður passar.

Skipting kálfa sem keyptir voru og fæddir árið 2018 milli landshluta er eftirfarandi:

Vesturland: 7
Húnaþing: 3
Skagafjörður: 1
Eyjafjörður: 13
Þing.: 5
Austurland: 2
Suðurland: 22

Myndin er af aldursforseta nautkálfa fæddra 2018, Bassa frá Sólvangi í Fnjóskadal sem er fæddur á nýársdag 2018 undan Úranusi 10081 og móðurfaðir er Koli 06003.

/gj