Nautaskrá

Frétt

Koli 06003 valinn besta naut 2006 árgangsins

Koli 06003

Besta naut árgangsins 2006 var valið á síðasta fundi fagráðs í nautgriparækt í byrjun júní. Fyrir valinu varð Koli 06003 frá Sólheimum í Hrunamannahreppi. Jafnframt var tekin sú ákvörðun að afhenda jafnan verðlaun fyrir besta nautið á ársfundi fagráðs til þess að gera þessari viðurkenningu hærra undir höfði en segja má að þetta séu æðstu verðlaun nautgriparæktarinnar hérlendis.
Koli var fæddur 23. febrúar 2006 á Sólheimum í Hrunamannahreppi, sonur Fonts 98027 og Elsu 226 dóttur Kaðals 94017 og eru ræktendur hans þau Jóhann B. Kormáksson og Esther Guðjónsdóttir.

Dómsorð Kola eru: „Afurðasemi dætra Kola er góð, einkum hvað varðar efnahlutföll. Þær eru stórar og sterkbyggðar, malir eru vel lagaðar, fremur flatar og fótstaða góð. Þetta eru júgurhraustar kýr með mjög vel borin júgur, afar sterkt júgurband og mjög góða júgurfestu. Spenar eru vel lagaðir og vel staðsettir en fremur stuttir og granir. Mjaltir eru í góðu meðallagi og kýrnar skapgóðar. Koli 06003 hlýtur nafnbótina besta naut 2006 árgangs nauta frá nautastöð BÍ.“

Koli 06003 stendur nú með 116 í heildareinkunn í kynbótamati.