Nautaskrá

Frétt

Fyrsta sæðistaka úr Angus-nautunum á Stóra-Ármóti

Í morgun, 15. ágúst, gáfu Angus-nautin Draumur 18402 og Baldur 18403 sæði sem verður til dreifingar frá Nautastöð BÍ á Hesti. Baldur gaf 214 skammta og Draumur 173 skammta. Vonandi tekst að ná sæði úr hinum nautunum næstu daga en nautin eru einungis rúmlega 11 mánaða. Sæðið er nú þegar komið í dreifingu en fyrsta sæðing með Draumi 18402 fór fram nú síðdegis á Hvanneyri. Hlutirnir gerast nú ekki öllu hraðar en þetta í nautgriparæktinni.

Þá komu til landsins í dag 41 fósturvísir sem eru undan nautinu Emil av Lillebakken en fyrr í sumar fæddust 2 nautkálfar undan Hovin Hauk og 2 nautkálfar undan Horgen Erie. Þá fæddust 7 kvígukálfar í viðbót við þær 7 kvígur sem fæddust síðasta haust. Það eru því til 14 hreinræktaðar Angus-kvígur í einangrunarstöðinni á Stóra-Ármóti.