Nautaskrá

Frétt

Frysting með SpermVital hafin

Þær Inga Camilla Dehli Østerud og Randi Kjelsberg frá SpermVital í Noregi eru nú að vinna við frystingu nautasæðis með SpermVital í fyrsta skipti á Íslandi. Reiknað er með þremur dögum hið minnsta í frystinguna að þessu sinni og búið að taka sæði úr 16 nautum til frystingar. Ef allt gengur að óskum mun því SpermVital-sæði standa íslenskum bændum til boða innan skamms.

Ekki þarf að fjölyrða um að nokkrar vonir eru bundnar við hagnýtingu þessarar tækni sem Norðmenn hafa eytt stórfé í þróun á. Það er ekki annað að sjá á heimasíðu SpermVital, www.spermvital.com, en að þeir séu hinir ánægðustu með að bæta Nautastöð BÍ við sína samstarfsaðila. Þar tala þeir um að Nautastöðin noti nú SpermVital í viðleitni sinni við að varðveita einstaka eiginleika íslenska kúakynsins sem landsnámsmenn hafi flutt með sér til landsins fyrir meira en 1.000 árum.

/gj