Nautaskrá

Frétt

Frá Nautastöðinni

Covid 19 hefur enn ekki haft nein afgerandi áhrif á störf hér á Nautastöðinni. Sæðistaka og sæðisafgreiðsla hefur verið með eðlilegum hætti. Þá virðist sem þátttaka í sæðingum sé svipuð og áður.
Eitt hefur þó breyst en það er að norsku vinir okkar frá SpermVital komu ekki hér í apríl eins og til stóð til að blanda langlíft sæði. Það mun verða til þess að framboð á langlífu sæði verður mun minna og trúlega EKKERT á þeim svæðum sem mest hafa notað þetta sæði. Ég mun þó reyna að miðla eitthvað á milli svæða en óvíst er hversu lengi það verður hægt. Ekkert er á þessari stundu vitað hvenær von er á Norðmönnunum í næstu heimsókn en ég mun leyfa ykkur að heyra af því þegar það skýrist.

Þá er farið að minnka verulega sæði úr nokkrum reyndum nautum og verða síðustu stráin úr þeim sett í kúta á næstu dögum og vikum. Það má helst nefna Sjarma 12090 frá Hrepphólum, Jörfa 13011 frá Jörfa, Hálfmána 13022 frá Brjánsstöðum og Ými 13051 frá Klauf. En þá er huggun harmi gegn að nægar birgðir eru til úr öðrum reyndum og góðum nautum og synir þessara sem taldir voru upp hér að ofan eru áberandi í nautum fæddum árið 2019.

Þá er einnig farið að fækka skömmtum úr Angus-nautunum úr árgangi 2018 frá Stóra-Ármóti. Árgangur 2019 telur fjögur naut sem fædd eru í júli. Vonir standa til að hægt verði að afgreiða sæði úr þeim í lok sumars og í haust. Þessir fjórir eru tvennir albræður, en þeir eru lítið skyldir Vísi 18400, Draumi 18402 og Baldri 18403.

/se