Nautaskrá

Frétt

Forðist frjótækna

Eins leiðinlegt og er að segja það þá er óhjákvæmilegt að beina þeim tilmælum til bænda að hafa sem minnst samskipti við frjótækna nema þá í gegnum síma. Þetta þýðir að í fjósi þurfa kýrnar að vera tilbúnar til sæðingar þegar frjótæknir kemur þannig að hann geti athafnað sig án aðstoðar auk þess sem skýrt þarf að koma fram á til dæmis upplýsingatöflu fjóssins hvaða kú/kýr á að sæða og hvaða naut eigi að nota ef ósk er um slíkt.

Athugið jafnframt að þrífa vel snertifleti eins og hurðarhúna. Við viljum í lengstu lög halda sæðingastarfseminni óraskaðri og það gerum við aðeins með því að leggja okkar af mörkum til þess að svo megi verða.

Hvernig get ég forðast smit af upplýsingasíðu Embættis landlæknis og almannavarnardeildar ríkislögregulstjóra, covid.is
Mikilvægast er að þvo sér vel og oft um hendurnar með vatni og sápu í lágmark 20 sekúndur eða nota handspritt. Þegar þú mætir í vinnu eða kemur heim skaltu byrja á að þvo hendur vel og vandlega. Svo er góð regla að forðast náin samskipti við aðra sem eru með einkenni kvefs, eins og hnerra eða hósta og halda sig í minnst tveggja metra fjarlægð. Ef þú þarft að hósta eða hnerra er betra að gera það í olnbogabótina en ekki í hendurnar eða út í loftið. Sýndu sérstaka aðgát við algenga snertifleti á fjölförnum stöðum, s.s. handrið, lyftuhnappa, snertiskjái, greiðsluposa og hurðarhúna. Heilsaðu með brosi frekar en handabandi.