Nautaskrá

Frétt

Fimm ný reynd naut til notkunar

Fagráð í nautgriparækt fundaði í gær og ákvað að setja fimm ný reynd naut til notkunar úr 2013 árgangi nauta að lokinni keyrslu á nýju kynbótamati fyrir afurðir og frumutölu. Þessi naut eru Kakali 13009 frá Engihlíð í Vopnafirði, Bárður 13027 frá Villingadal í Eyjafirði, Ýmir 13051 frá Klauf í Eyjafirði, Steri 13057 frá Stóru-Mörk undir Eyjafjöllum og Lurkur 13084 frá Torfum í Eyjafirði. Hér er um að ræða syni Birtings 05043, Kola 06003, Balda 06010 og Kambs 06022. Þessi naut koma til dreifingar við næstu áfyllingar á kútum frjótækna um land allt.

Áfram verða eftirtalin naut í dreifingu; Fossdal 10040, Stólpi 11011, Skalli 11023, Bakkus 12001, Pipar 12007, Loki 12071, Sjarmi 12090, Dúett 12097, Polki 12099, Jörfi 13011, Víkingur 13017 og Hálfmáni 13022. Nautsfeður til notkunar næstu mánuði verða þeir Bakkus 12001, Sjarmi 12090, Hálfmáni 13022 og Steri 13057. Menn eru beðnir að hafa í huga að nota Stera eingöngu á nautsmæður með góðar mjaltir.

Úr notkun verða teknir Kústur 10061, Dropi 10077, Skellur 11054 og Kraftur 12024. Ástæður eru ýmist dræm notkun, sæði uppurið eða lækkun í mati.

Þau reyndu naut sem halda áfram í dreifingu komu vel út við keyrslu kynbótamats nú og stóðu vel við fyrri dóm. Hafa verður í huga að með mælidagalíkani bætist mjög ört og hlutfallslega mikið við afurðaupplýsingar dætra yngstu nautanna. Þau naut geta því breyst nokkuð í mati milli keyrslna.

Menn eru hvattir til að kynna sér upplýsingar kosti og galla þessara nauta, leita ráðgjafar um notkun þeirra með t.d. vinnslu kynbótaáætlana og nota sæðingar í sem allra mestum mæli, bæði á kýr og kvígur. Glöggt má sjá á dætrahópum þeirra nauta sem hafa hellst úr afkvæmaprófun á síðsutu mánuðum að framfarir í júgur- og spenagerð ásamt mjöltum og skapi eru umtalsverðar. Þau naut sem standa mönnum til boða nú eru því í langflestum tilvikum úrtökugóðir kynbótagripir og beinlínis fráleitt að láta slík tækifæri fram hjá sér fara.

/gj