Nautaskrá

Frétt

Enn fjölgar í Angus-hjörðinni á Stóra-Ármóti

Þessa dagana eru kýrnar á einanangurstöð NautÍs á Stóra-Ármóti að bera. Um er að ræða kálfa tilkomna með fósturvísaflutningi frá Noregi og er faðir þeirra Emil av Lillebakken NO74028 en hann er alhliða naut, gefur góðan vaxtarhraða og mikil kjötgæði auk þess sem dætur hans eru afbragðskýr. Eini gallinn er að hann gefur mikinn fæðingarþunga og þess vegna er hann t.d. ekki notaður á holdakvígur í Noregi. Núna eru fæddir fimm kálfar og von á einum til viðbótar. Af þessum fimm kálfum eru tvö naut sem væntanlega koma þá til nytja á næsta ári.
Sæðistaka úr nautunum fjórum sem fæddust í fyrra er hafin og lofar góðu. Þar er um að ræða tvo syni Hovin Hauk NO74043 og tvo syni Horgen Erie NO74029.
Kvígurnar sem fæddust árið 2018, sem eru dætur Li’s Great Tigre NO74039, voru sæddar með Jens av Grani NO74061 og virðast sex af sjö kvígum hafa haldið við fyrstu sæðingu. Þær munu þá bera um miðjan febrúar.

Meðfylgjandi mynd er af Emil av Lillebakken NO74028.