Nautaskrá

Frétt

Danir hætta að dæma mjaltir um áramótin

Undanfarna áratugi hefur kynbótagildi fyrir mjaltir byggst á mati bænda á mjaltatíma einstakra kúa miðað við aðrar kýr í hjörðinni. Með tækniframförum og breytingum á mjaltatækni hafa skapast möguleikar á að safna gögnum um raunverulegan mjaltatíma og mjólkurflæði einstakra kúa. Beinar mælingar hafa þann ótvíræða kost að þar er um fullkomlega hlutlæg gögn að ræða þar sem huglægt mat kemur hvergi nærri. Danir hafa nú tekið þá ákvörðun að þessar mælingar verði eingöngu notaðar til mati á kynbótagildi fyrir mjaltir í framtíðnni og munu hætta dómum á mjöltum frá og með 1. janúar 2021.

Umfang beinna mælinga á mjólkurflæði og mjaltatíma tekur orðið til það mrgra kúa í Danmörku að öryggi matsins verður meira en með kúadómum en arfgengi beinna mælinga borið saman við mat í dómum er nálægt tvöfalt hærra. Þetta leiðir hugann að stöðu okkar hér á landi. Nú þegar erum við að safna gögnum úr hluta þeirra Lely-mjaltaþjóna sem eru í notkun en það eru ekki nærri allir sem notfæra sér þann möguleika að skila rafrænt. Hvað aðrar tegundir snertir getur Huppa tekið við gögnum úr Fullwood en enn sem komið er þá er þessi möguleiki ekki fyrir hendi hvað DeLaval og GEA snertir. Hins vegar er unnið að því á vettvangi NCDX sem er samstarfsvettvangur Norðurlandanna á þessu sviði.

Framtíðarsýnin er sú að gögn flæði milli Huppu og mjaltakerfa í nánast rauntíma og skráningar fari aðeins fram annað hvort í mjaltakerfinu eða Huppu. Það kemur til með að gjörbreyta allri gagnasöfnun og auka nákvæmni og skilvirkni.

/gj