Nautaskrá

Frétt

Breytingar á reyndum nautum í notkun

Fagráð í nautgriparækt fundaði í gær og tók ákvörðun um hvaða naut verða í dreifingu sem reynd naut á næstu mánuðum. Nýtt kynbótamat var keyrt núna í byrjun október og að þessu sinni með breyttum áherslum, þ.e. heildareinkunn er nú reiknuð með nýju vægi eiginleika. Þær breytingar hafa verið kynntar, m.a. í Bændablaðinu. Þessar breytingar hafa breytt aðeins mati nauta og þá á þann veg að þau naut sem gefa dætur sem mjólka fituríkri mjólk og eru með góða júgur- og spenagerð hækka heldur í mati. Sem dæmi hefur Sjarmi 12090 nú lækkað úr 115 í 111 án þess að í raun hafi orðið stórvægilegar breytingar á mati hans fyrir einstaka eiginleika. Heildareinkunn reiknast hins vegar lægri vegna breyttra áherslna.

Þær breytingar verða að Hnykkur 14029 frá Hlöðum í Hörgársveit kemur nú til notkunar. Hann er undan Legi 07047 og Pílu 483 Stígsdóttur 97010. Hnykkur er með 107 í heildareinkunn og gefur mjólkurlagnar kýr með góð hlutföll verðefna í mjólk en spenar eru grannir. Þá gefur hann nokkuð af gráum kúm fyrir þá sem áhuga hafa á fjölbreyttum kúalitum.

Úr notkun falla Stólpi 11011, Skalli 11023, Kakali 13009, Víkingur 13017, Lurkur 13084 og Brjánn 14002. Þessi naut eru ýmist tekin úr notkun vegna þess að þau teljast fullnotuð eða þau hafa lækkað í mati.

Nautsfeður til notkunar næstu mánuði verða Pipar 12007, Jörfi 13011, Hálfmáni 13022, Ýmir 13051 og Kláus 14031. Gæta þarf vel að því að velja Ými til notkunar á kýr með efnaríka mjólk.