Sveinbjörn Eyjólfsson
Nautgripasæðingar 2012
Grein 3.
Enn höldum við áfram að rýna í sæðingarstarfsemina undanfarin ár. Gaman er að sjá hvernig sæðingar skiptast niður á milli mánaða. Verulegur munur er á fjölda sæðinga milli mánaða en línan er svipuð flest árin. Þó virðist eins og heldur dragi úr fjölda sæðinga seinni hluta ársins á þessum þremur árum. Þá hefur sumarsæðingum heldur fækkað og kannski verulega ef litið væri lengra aftur í tímann. Janúar er sterkur árið 2012 eins og flest undanfarin ár en september er ávallt sá mánuður þar sem fæstar sæðingar eru framkvæmdar.
Á mynd 1 má sjá fjölda sæðinga eftir mánuðum síðastliðin þrjú ár.
Mynd 2 sýnir hlutfallslegan fjölda sæðinga eftir mánuðum. Þar sést betur sú breyting hversu dregið hefur úr sæðingum seinni hluta ársins.
Samhliða fjölda sæðinga í hverjum mánuði er gaman að skoða fanghlutfall í þeim sömu mánuðum. Það má sjá á mynd 3. Þar sést líka að árangurinn er oft bestur þegar sæðingar eru fæstar og spurning hvort flutningur sæðinga frá þeim mánuðum er ekki að hluta skýring á lækkandi fanghlutfalli síðustu ár. Til skemmri tíma veldur mestum áhyggjum fallandi fanghlutfall í lok ársins 2012.