Nautaskrá

Annað

Naut til sérpöntunar – reglur

Til viðbótar þeim reyndu nautum sem finna má undir „Reynd naut“ og eru í almennri notkun, er til sæði úr fjölmörgum fleiri nautum sem komin eru með afkvæmadóm. Úr þessum nautum er mögulegt að fá sæði til notkunar með því að sérpanta það. Huga þarf að sérpöntun sæðis með góðum fyrirvara þannig að viðkomandi frjótæknir geti verið kominn með það í hendurnar er að sæðingu kemur.
Ástæður fyrir því að sælast í þessi naut geta verið fjölmargar. Menn eru að reyna að ná í einhverja sérstaka eiginleika frá viðkomandi nauti. Sumir hafa áhuga á og gaman að því að reyna að auka litafjölbreytni gripa í fjósinu. Allt eru þetta og fjölmargt fleira góðar og gildar ástæður fyrir áhuga á að nota viðkomandi naut frekar.

 

Reglur um sérpöntun á sæði úr nautum sem ekki eru í almennri dreifingu

  1. Kúabændur og nautgriparæktendur geta sérpantað sæði úr nauti/nautum sem ekki eru í almennri dreifingu, þ.e. er/eru ekki í nautaskrá.
  2. Hægt er að panta sæði úr nauti/nautum sem hlotið hafa A-dóm, þ.e. dóm sem nautsfeður, eða B-dóm, þ.e. dóm sem kýrfeður, með þeim takmörkunum að ekki skulu liðin meira en þrjú ár frá því að viðkomandi naut hlaut/hlutu afkvæmadóm eða var/voru síðast í dreifingu.
  3. Nautastöðinni er ekki heimilt að dreifa sæði úr óreyndum nautum sem bíða afkvæmadóms eftir að dreifingu til afkvæmaprófunar lýkur og þar til afkvmadómur hefur farið fram og nautið/nautin teljast reynd.
  4. Sérpöntun skal berast nautastöðinni með góðum fyrirvara, þ.e. 4-6 vikum fyrir fyrirhugaðan sæðingardag þannig að nægur tími vinnist til að koma sæðinu til viðkomandi frjótæknis.
  5. Nautastöðinni er heimilt að innheimta afgreiðslugjald auk áfallins kostnaðar vegna sérpantana á sæði.
  6. Nautastöðin áskilur sér rétt til þess að neita afgreiðslu á sérpöntun ef sæðisbirgðir úr viðkomandi nauti/nautum eru komnar niður fyrir ákveðið lágmark og/eða ef sæðisgæði þeirra birgða sem eftir eru úr viðkomandi nauti/nautum eru ófullnægjandi að mati dýralæknis stöðvarinnar.
  7. Fagráð í nautgriparækt getur fyrirvaralaust bannað dreifingu á ákveðnum nautum ef í ljós hefur komið að viðkomandi naut eru á einhvern hátt óæskilegir til frekari notkunar, t.d. ef í ljós kemur að viðkomandi naut bera erfðagalla.
  8. Fagráð í nautgriparækt getur endurskoðað hvort naut eru til sérpöntunar eða ekki þó svo viðkomandi naut hafi hlotið A- eða B-dóm ef þau hafa fallið mjög í mati frá því afkvæmadómur fór fram.

Samþykkt á fundi fagráðs í nautgriparækt 24. apríl 2015.