Nautaskrá

Þú ert hér: Forsíða / Annað / Kaup á nautkálfum
Annað

Kaup á nautkálfum

Nautastöð Bændasamtaka Íslands kaupir á hverju ári 70-80 valda nautkálfa frá bændum til kynbóta á íslenska kúastofninum. Þeir eru að jafnaði fluttir á Nautastöðina á Hesti 45-75 daga gamlir. Mjög mikilvægt er að kálfarnir séu vel fóðraðir og hirtir áður en þeir eru fluttir á Nautastöðina sem og eftir komu þangað.

 

TILKYNNING UM KÁLF – SKOÐUN
Þegar að nautsmóðir eða efnileg kvíga ber nautkálfi undan nautsföður óskum við eftir því að tilkynnt sé um kálfinn til nautgriparæktarráðunauta Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og hann boðinn stöðinni til kaups. Þeir taka ákvörðun um hvort kálfurinn verði keyptur á Nautastöðina eður ei. Sé áhugi á kálfinum mun ráðunautur koma og skoða kálfinn og móðurina. Meðal þess sem skoðað er hvort kálfurinn sé rétt skapaður, kollóttur, með rétt bit, ekki eineistungur, fjöldi spena o.fl. Standist kálfur og móðir skoðun verður kálfurinn keyptur á stöðina.

 

FÓÐRUN OG HIRÐING FRÁ FÆÐINGU TIL FLUTNINGS
Kálfurinn þarf að vera vel fóðraður fyrir flutning á Nautastöðina. Kálfar á mjólk þurfa að fá 4-6 lítra á dag og frjálsan aðgang að próteinríku kjarnfóðri strax 4-7 daga gamlir. Bygg er ekki hentugt ungkálfafóður. Þá þurfa þeir frjálsan aðgang að góðu heyi og að sjálfsögðu fersku drykkjarvatni.

 

Aðbúnaður þarf að vera í samræmi við góða búskaparhætti (nægilegt rými, þurrt, hreint o.s.frv.).

 

Óhreinn, vansæll og/eða illa fóðraður nautkálfur er ekki góð byrjun fyrir kynbótanaut framtíðarinnar.

 

ÖNNUR ATRIÐI
Munið að merkja kálfinn í samræmi við ákvæði reglugerðar um merkingar búfjár.

 

Í skýrsluhaldinu skal skrá kálfinn seldan Nautastöðinni á Hesti, búsnúmer 2118411.