Nautaskrá

Þú ert hér: Forsíða / Annað / Erfðaframvinda
Annað

Erfðaframvinda

Erfðaframvinda afurða
Á myndinni hér fyrir neðan má sjá að verulegar erfðaframfarir hafa orðið í íslenska kúastofninum hvað afurðir í kg próteins varðar s.l. ár. Á x-ásnum er fæðingarár kúnna en kynbótamatið á y-ásnum. Á því rúmlega 25 ára tímabili sem myndin sýnir hafa orðið verulegar framfarir, þ.e. kynbótamatið hefur til jafnaðar hækkað um tæplega 32 stig. Á árabilinu 2000-2009 jukust t.d. afurðir í kg próteins aukist um 1,1 kg á ári til jafnaðar.

Á sama tíma og afurðir hafa farið stöðugt vaxandi í kg próteins fór próteinhlutfall í mjólk lækkandi á árunum 1970-1990. Frá 1990 hefur próteinhlutfall í mjólk hins vegar farið hækkandi enda var farið að velja nautin m.t.t. til þessa eiginleika 1983-84. Frá því að synir þeirra nauta komu inn í ræktunarstarfið hefur próteinhlutfallið farið hækkandi.

 

Erfðaframvinda frumutölu (júgurhreysti), mjalta og skaps
Á allra síðustu árum má greina verulegar framfarir hvað varðar júgurhreysti, mjaltir og skap. Júgurhreysti er mæld út frá frumutölu úr niðurstöðum kýrsýna sem undirstrikar mikilvægi þess að taka þeirra og skil séu með reglubundnum hætti. Framfarir í mjöltun hafa aukist hin síðari ár enda byggir matið í auknum mæli á beinum mælingum, þ.e. mjólkurflæði.

Erfðaframvinda – skrokkur, júgur og spenar
Ekki er hægt að greina neina breytingu hvað varðar skrokk eða byggingu kúnna enda kemur skrokkeinkunn ekki inn í heildareinkunn nautanna.
Hins vegar eru verulegar framfarir hvað snertir júgur- og spenagerð, einkum hin síðari ár.

Erfðaframvinda – afurðir, frjósemi, heildareinkunn
Einkunn fyrir afurðir og þar með afkastageta kúastofnsins hefur vaxið verulega á umræddu árabili. Á árabilinu 2000-2009 hafa afurðir í kg mjólkur aukist um liðlega 32 kg á ári að jafnaði. Frá árinu 1970 dalaði frjósemin enda þekkt að með auknum afurðum minnkar frjósemin. Það er í takt við það sem gerist annars staðar. Ánægjulegt er hins vegar að sjá að tekist hefur að halda frjóseminni stöðugri undanfarin ár.
Heildareinkunn nautanna hefur hækkað allverulega enda vega afurðir, júgurhreysti, júgur, spenar, mjaltir og skap þar verulega inn í, þ.e. þeir þættir þar sem erfðframfarir hafa verið verulegar. Eins og sjá má á myndinni hafa framfarir aukist verulega frá því að tekið var upp nýtt kynbótamat 1992-93.

Heimild: Bændasamtök Íslands / Elsa Albertsdóttir

/gj