Nautaskrá

Annað

Ávinningur af notkun SpermVital

Nokkrar tilraunir hafa verið gerðar með notkun SpermVital. Árið 2010 var gerð tilraun með kýr í Hollandi. Sæddar voru kýr með frjósemisvandamál og reyndist fanghlutfall 49% með SpermVital-sæði samanborið við 25% með hefðbundnu sæði. Þess verður þó að geta að SpermVital-sæðið var úr NRF-nautum en hefðbundna sæðið úr Holstein-nautum en það kann að hafa haft áhrif. Á Ítalíu var gerð tilraun sumarið 2012 með Holstein-kýr. Þar var fanghlutfall 25% hærra með SpermVital-sæði, þ.e. 41,9% samanborið 33,5% með hefðbundnu sæði. Ávinningur í hærra fanghlutfalli var mestur við þriðju sæðingu. Í þessari tilraun var eingöngu um að ræða Holstein-naut.

Í Noregi var árið 2014 skoðað hvort ein sæðing með SpermVital-sæði gæti komið í stað tvísæðinga við samstillingu. Samstilltar voru 491 kýr, bæði mjólkur- og holdakýr, og sæddar annars vegar einu sinni með SpermVital-sæði og hins vegar tvisvar sinnum með hefðbundnu sæði. Niðurstaðan var sú að fanghlutfall reyndist 59,2% með einni SpermVital-sæðingu samanborið við 60,6% með hefðbundinni tvísæðingu.

Árið 2010 var framkvæmd norsk tilraun þar sem borið var saman SpermVital-sæði og hefðbundið sæði úr sömu nautum og sæðistökum. Þetta sæði var síðan notað án þess að bændur eða frjótæknar vissu um hvora sæðisgerðina væri að ræða. Niðurstðan var sú að enginn munur var á fanghlutfall mældu sem 58 daga ekki uppbeiðsli.

Af þessu má sjá að SpermVital skilar hærra fanghlutfalli við ákveðna notkun. Leið má líkur að því að SpermVital hækki fanghlutfall þar sem það er lágt fyrir en breyti engu þar sem fanghlutfall er ásættanlegt. Hins vegar er greinilegt að SpermVital getur leyst tvísæðingar af hólmi og þannig lækkað kostnað við samstillingar. Þá er áreiðanlegt eins og áður er nefnt að notkun SpermVital-sæðis á vandamálkýr á fullan rétt á sér en notkun þess á kýr eða kvígur sem beiða vel og geinilega og eru sæddar á „réttum“ tíma felur ekki í sér neinn ávinning.

Því má slá föstu að ávinningur bænda vegna betra fanghlutfalls og þar með styttri geldstöðu, minni förgunar vegna ófrjósemi o.þ.h. yrði umtalsverður að því gefnu að notkunin sé markviss og í samræmi við leiðbeiningar þar að lútandi. Í því samhengi má benda á að árið 2015 var ófrjósemi tilgreind sem förgunarástæða í 17% tilfella, eða hjá rúmlega 1.100 kúm. Jafnframt má ráða af gögnum skýrsluhaldsins að a.m.k. 17% af ásettum kvígum skili sér aldrei í framleiðslu, einkum vegna þess að þær festa ekki fang. Það er nokkuð á annað þúsund gripir á ári hverju.