Nautaskrá

Þú ert hér: Forsíða / Annað / Ársskýrsla 2020
Annað

Ársskýrsla 2020

Árið var 2020 hjá okkur, líkt og öllum öðrum, ólíkt því sem þekktist áður. Covid hefur þó ekki gert strandhögg hér á bæ en samt haft mikil áhrif á allt starf. Við höfum vandað okkur í hvívetna, stöðin hefur verið mest lokuð öðrum en þeim sem hingað eiga brýnt erindi og við höfum gætt enn betur að sóttvörnum en áður. Kannski fólst mesta breytingin í því að við fengum ekki heimsókn frá SpermVital gengi Norðmanna og því fóru mörg naut hér í gegn án þess að úr þeim væri blandað ”langlíft” sæði. Árið var líkt og önnur ár bland af staðfestu og breytingum. Reynt að halda í það góða og bæta það sem bæta þarf. Verkferlar yfirfarnir og bætt við tækjabúnað. Þá gekk sæðistakan ágætlega og voru teknir vel yfir 200 þús. skammtar til nytja.

Á árinu 2020 keyptum við 56 (55) kálfa, einum fleiri en í fyrra. Eins og áður voru kálfarnir vistaðir í sjö hollum og voru þeir flestir 11 í holli en fæstir 6. Eftir landshlutum er skiptingin þannig að (árið 2019 innan sviga) 15 (28) kálfar komu af Suðurlandi, 10 (6) kálfar af Vesturlandi, enginn (0) kálfur af Vestfjörðum, 5 (4) kálfar af Norðurlandi vestra, 22 (14) kálfar af Norðurlandi eystra, og 4 (3) kálfar af Austurlandi. Þessi skipting er nú ekki í samræmi við kúafjölda á hverju svæði en það er ýmislegt sem getur ráðið því. Þessir kálfar koma frá 45 bæjum, sem er mikil dreifing. Fjórir bæir sendu okkur 3 kálfa þetta árið en það eru Brúnastaðir í Flóahreppi (líka árið 2019), Glitstaðir í Norðurárdal, Espihóll í Eyjafjarðarsveit og Stóra-Mörk í Rangárþingi eystra.

Af þessum 56 kálfum eru 46 enn lifandi , 9 hafa verið felldir og einn drapst.

Almennt má segja að einangrunin hafi tekist vel og að þroski kálfanna hafi verið ágætur.  Fóðrað er á kálfadufti, kjarnfóðri og töðu, kálfarnir liggja í hálmi og er húsvistin hin besta. Kálfarnir voru að meðaltali 61 (61) daga gamlir við komu á stöð. Við greiðum 30.000/27.600 kr. fyrir lífið og síðan 810 kr. á dag fyrir fóðrun og hirðingu. Meðalverð á kálfi, án vsk, var á árinu rétt um 77 (77) þús kr. eða sama verð og síðustu tvö ár.

Þessir 56 kálfar eru undan 8 (11) nautum, sem eru heldur færri naut en í fyrra. Jörfi 13011 frá Jörfa í Kolbeinsstaðahreppi á 16 (1) syni, Hálfmáni 13022 frá Brjánsstöðum í Grímsnesi á 14 (4) syni, Sjarmi 12090 frá Hrepphólum í Hrunamannahreppi á 7 (9) syni,  Pipar 12007 frá Espihóli í Eyjafjarðarsveit á 7 syni, Steri 13057 frá Stóru-Mörk í Rangárþingi-eystra á 6 (4) syni, Ýmir 13051 frá Klauf í Eyjafjarðarsveit á 3 syni, Kláus 14031 frá Villingadal í Eyjafjarðarsveit á 2 syni og Bakkus 12001 frá Auðsholti í Hrunamannahreppi á 1 (14) son. Allt eru þetta vænleg naut og hafa allir gott fram að færa í ræktuninni

Við fylgjumst vel með þroska og þynginu yngri gripanna hér á stöðinni. Þeir eru vigtaðir mánaðarlega og reynt að skoða hvað veldur misjöfnum vexti. Eftir að þeir koma í sæðistöku eru þeir ekki vigtaðir meira.  Í meðfylgjandi töflu má sjá hvernig kálfarnir gengu fram á árinu 2020 og reyndar einnig á árinu 2019 til samanburðar. Á árinu 2020 er þynging jafnari og betri og þessar sveiflur sem sáust á árinu 2019 eru ekki eins miklar. Áfram fáum við fall á haustmánuðum og enn vil ég kenna skitu um að hluta. Þrátt fyrir að umgangur um stöðina sé í algeru lágmarki (ekki síst á árinu 2020 þá finnur hún sér leið til okkar. Heyfengur ársins 2020 er alveg ágætur en við verðum vör við að þeir fúlsa svolítið við hánni ef hún ef mjög þurr. Engar vigtartölur fyrir nóvember 2020 skýrast af því að vigtin bilaði og það tók töluverðan tíma að gera við hana.

Tafla 1

Ár 2019 2020
Mánuður Fjöldi kálfa Meðalaldur kálfa í lok tímabils, dagar Þynging gr á dag Hlutfallsleg þynging á dag Fjöldi kálfa Meðalaldur kálfa í lok tímabils, dagar Þynging gr á dag Hlutfallsleg þynging á dag
Janúar 33 244 681 0,38% 41 233 835 0,45%
Febrúar 30 217 809 0,49% 44 218 988 0,58%
Mars 27 232 964 0,51% 37 233 730 0,40%
Apríl 33 220 724 0,45% 46 234 910 0,49%
Maí 36 201 748 0,50% 48 219 847 0,51%
Júní 34 221 849 0,51% 50 211 879 0,51%
Júlí 34 232 778 0,48% 48 239 993 0,49%
Ágúst 32 254 1108 0,56% 41 250 904 0,42%
September 39 242 1040 0,63% 40 248 864 0,43%
Október 43 203 762 0,60% 36 268 779 0,35%
Nóvember 37 216 711 0,47%
Desember 43 218 697 0,46% 39 248 766 0,53%

 

Sæðistökunaut eru í rúmgóðum einstaklingsstíum. Ágætlega gengur að þjálfa naut til að stökkva og var þetta ár gott hvað það varðar. Sæðisgæði voru í þokkalegu lagi en níu naut þurfti að fella ýmist vegna sæðisgæða eða að þau fóru undan mér í sæðistöku. Þá þurfti að fella eitt naut sem ekki stóðst skoðun fyrir sæðistöku vegna misþroska eistna. Flest naut eru nú tekin fram í múl en einstaka naut stekkur betur ef það er haft laust.

Á árinu notuðu öll búnaðarsambönd á landinu djúpfryst sæði. Innheimta sæðingagjalda var eins og á árinu 2019, holdakýr ekki taldar með í kúafjölda og hvorki reiknað álag vegna SpermVital sæðis eða holdasæðis. Á árinu 2020 var gjaldið 2.926 (2.840) kr  á hverja kú og helmingur þess gjalds á hverja kvígu á forðagæsluskýrslum.

Alls voru sendir út 51.662 (53.093) skammtar sem er heldur minna en á síðasta ári. Munur milli ára ræðst oft af dagsetningu útsendingar í byrjun og lok árs og fjöldi sæðinga hefur einnig áhrif.

Taflan hér fyrir neðan sýnir breytingar í fjölda sæðinga hverju ári frá 2012 til og með 2019. Tölur fyrir árið 2020 eru ekki nógu nákvæmar til að sýna í þessum samanburði strax. Fyrstu sæðingum hefur aðeins fjölgað milli ára en er væntanlega innan skekkjumarka. . Á því geta verið skýringar en vanalega veit það á gott hvað varðar þátttöku ef fyrstu sæðingum fjölgar. Sama á við um heildarfjölda sæðinga þetta ár, sem hefur heldur fjölgað. E.t.v skýrist það af því að meti fanghlutfall var aðeins lakari árið 2019.

Tafla 2

Ár 1. sæðing Hlutfallsleg breyting frá 2012 Allar sæðingar Hlutfallsleg breyting frá 2012
2012 26.276 44.773
2013 26.890 2% 46.782 4%
2014 28.752 9% 51.991 16%
2015 29.971 14% 54.419 22%
2016 29.259 11% 51.573 15%
2017 31.205 19% 51.548 15%
2018 28.822 10% 49.164 10%
2019 29.070 11% 51.080 14%

 

Skipting sæðis í flokka var þannig (innan sviga árið 2019) að 48,0% (45,1%) var úr reyndum nautum, 48.7% (51,9%) úr óreyndum nautum og 3,3% (3,0%) úr holdanautum. Þessi skipting er mun nærri kynbótamarkmiðinu en fyrra ár og ekkert nema gott um þetta að segja. Áfram er aukin áhugi fyrir holdasæðinu nýja.  Rétt er að taka fram að þetta er útsent sæði og það þarf ekki að fara saman við notkun.

Þau reyndu naut sem mestrar hylli nutu á síðasta ári voru Jörfi 13011 frá Jörfa með 1.993 skammta, Kláus 14031 frá Villingadal með 1.963 skammta, Pipar 12007 með 1.860 skammta, Hæll 14008 frá Hæli með 1.752 skammta og Risi 15014 frá Syðri-Bægisá með 1.594 skammta. Topparnir eru ekki jafn háir þetta árið og í fyrra og alls eru níu reynd naut með fleiri en 1.000 skammta útsendingu.  Auðvitað er dreifing á sæði mismikil eftir svæðum. Þetta árið var 19.481 (21.133) skammti dreift á svæði Búnaðarsambands Suðurlands,  8.264 (9.761) skömmtum á svæði Búnaðarsambands Eyjafjarðar og 6.879 (7.505) skömmtum á Vesturlandi (Reykjavík til og með Dalir). Færri skammtar fóru á önnur svæði. 968 skammtar fóru á Vestfirði, 2.951 í Húnavatnssýslur. 5.914 í Skagafjörð, 3.652 í S-Þingeyjarsýslu, 2.347 á Austfirði og að lokum 1.206 skammtar í A-Skaftafellssýslu.

Í upphafi árs voru 64 naut/kálfar á stöðinni hér á Hesti og þau voru 55 við árslok.   24 stíur eru hér fyrir sæðistökunaut og voru þær sjaldnast allar setnar.

Á árinu voru teknir 214.930 (219.452) skammtar af sæði úr 51 (55) nauti.  Þessi tala vísar til þeirra sæðisskammta sem voru metnir hæfir til nota.

Af nautum fæddum árið 2019 eru 27 (31) naut farin í almenna dreifingu og 7 naut til viðbótar gætu farið í dreifingu.  Þau hafa ekki oft verið fleiri. Nokkra álitlega kálfa varð að fella úr árganginum af ýmsum ástæðum.

NBÍ ehf. í samstarfi við Þorstein Ólafsson dýralækni sáu aftur um sæðistöku úr ungnautum á innflutningsstöð NAUTÍS á Stóra-Ármóti. Við reyndum að taka sæði úr fjórum nautum en einungis þrjú þeirra gáfu sæði. Öll voru þau frekar ung þegar við tókum sæðið og má í raun furða sig á að svo mikið sæði hafi náðst úr þeim svona ungum. Metið fanghlutfall hefur verið betra en í fyrra en þó er ljóst að aldur þeirra hefur áhrif þar á.

63  gripir voru felldir á árinu á móti 48 gripum í fyrra.  Öllum gripum var slátrað hjá SS á Selfossi.  Meðalfallþungi var 189 kg á móti 234 kg á síðasta ári.

Á síðasta ári var hey keypt af LBHÍ en Magnús Eggertsson í Ásgarði keyrði skít á túnin.  Samningur var gerður um heykaup vil LBHÍ og gildir hann til 5 ára. Hálmur var fenginn frá Langholti og er hann þurr og góður.

Sat engan fund fagráðs þetta árið.

Þá er ég í stjórn Nautís, sem sér um innflutningsbú fyrir holdagripi. Fósturvísar úr Aberdeen Angus voru fyrst fluttir inn seint á árinu 2017 og þeir settir upp í kúm á búinu. Það var endurtekið árið 2018 og aftur árið 2019 og enn árið 2020. Fanghlutfall mætti vera betra en stofninn er kominn inn í landið og mun verða lyftistöng fyrir kjötframleiðslu bænda.

Þrátt fyrir Covid tókum við á móti nemendum LBHÍ, bæði starfsgreinabraut og háskólabraut og sögðum frá starfi og hlutverki stöðvarinnar.  Þá hef ég tekið að mér að vera prófdómari í kúadómum hjá Landbúnaðarháskólanum.

Við gáfum út Nautaskrá á árinu. Veglegt rit sem auk upplýsinga um naut og starfsemina hér inniheldur nokkrar fræðigreinar um nautgriparækt og kynbætur. Höfundar þeirra er ungt vísindafólk sem vinnur fyrir landbúnaðinn í námi og starfi þau Þórdís Þórarinsdóttir frá Keldudal og Egill Gautason frá Engihlíð. Þá sagði Guðmundur Steindórsson frá kúnni Doppulínu frá Baldursheimi, sem eignaðist 14 kálfa og við fengum bréf frá bændum.  Guðmundur Jóhannesson var faglegur ritstjóri og Snorri Sigurðsson sá um auglýsingar. Rósa Björk á Hvanneyri setti skrána upp og Lunddælingurinn Olgeir Helgi prentaði. Öllum er hér með þakkað fyrir góð störf.

Nú rétt fyrir áramót seldum við gömlu stöðina á Hvanneyri og var kaupandinn  Stilkur ehf. Kaupverð var 19 milljónir kr.

Íris Þórlaug Ármannsdóttir frá Kjalvararstöðum er fjósameistari stöðvarinnar og vinnur hér samviskusamlega öll störf. Sumarblóm stöðvarinnar var Hera Sól Hafsteinsdóttir, nemi á Hvanneyri, ættuð frá Hurðarbaki í Reykholtsdal. Ágústa Rut var hér við þrif, helgarvinnu og sæðistöku fram á vor en eftir sumarið tók Hera við þeim störfum. Enn hefur ekki tekist að ráða í stöðu dýralæknis við stöðina en samningur er í gildi við Gunnar Gauta Gunnarsson í Borgarnesi um að sinna stöðinni tímabundið. Öllu mínu góða samstarfsfólki eru þökkuð vel unnin störf.

 

Janúar 2021, Sveinbjörn Eyjólfsson.